SOLOPRENEUR í Pescara á Ítalíu

  • 30/05/2019

TIL BAKA





SOLOPRENEUR í Pescara á Ítalíu

30/05/2019

30. maí síðast liðinn funduðu starfsmenn Þekkingarnets Þingeyinga með samstarfsaðilum sínum í Evrópuverkefninu SOLOPRENEUR í strandbænum Pescara á Ítalíu. Verkefnið er fjármagnað af Erasmus+. Samstarfsaðilar í verkefninu eru 8 talsins og koma frá 6 löndum, Belgíu, Kýpur, Frakklandi, Spáni, Ítalíu og Íslandi.

SOLOPRENEUR verkefninu er ætlað að aðstoða íbúa í dreifbýli í Evrópu þar sem fjarlægðirnar þrengja að atvinnutækifærum og þá sem hafa áhuga á frumkvöðlastarfsemi og vilja hefja sinn eigin rekstur. Markmiðið með verkefninu er að þróa aðgengilegt fræðsluefni og þjálfunaraðferðir til að efla atvinnumöguleika á þessum svæðum og er sérstaklega ætlað þeim sem vilja koma sér inn á vinnumarkaðinn að nýju með eigin atvinnurekstri.

Á fundinum í Pescara kynntu allir samstarfsaðilarnir það hvernig málum er háttað þegar kemur að frumkvöðlastarfsemi og umhverfi einyrkja í þeirra landi. Voru það mjög fróðlegar kynningar sem gáfu góða mynd af stöðunni heilt yfir í Evrópu. Fyrirhuguð uppbygging og efnisinnihald fræðsluefnisins var rætt og ákveðið á fundinum. Þetta efni mun verða aðgengilegt á 6 tungumálum. Að auki var farið yfir aðgerðaráætlun í markaðssetningu á verkefninu til að tryggja að verkefnið fái góða kynningu í öllum 6 löndunum.

Þekkingarnet Þingeyinga mun sjá um að þróa kennsluefni fyrir íslenska frumkvöðla og mun það efni verða byggt á niðurstöðum þeirra kortlagningar á frumkvöðlastarfsemi sem við erum nú þegar búin að vinna. Það eru spennandi tímar framundan í verkefninu og höfum við fulla trú á að afrakstur verkefnisins muni nýtast þeim sem hafa áhuga á að skapa sér sína eigin atvinnu, sérstaklega á dreifbýlli stöðum landsins.

Fyrir frekari upplýsingar um SOLOPRENEUR:

www.solo-preneur.eu
hilmar@hac.is
www.hac.is